Erlent

Írakar ræða við uppreisnarhópa

Stjórnvöld í Írak hafa undanfarna daga átt í viðræðum við forvígismenn uppreisnarhópa sem ekki tengjast al-Kaída. Háttsettur starfsmaður stjórnvalda skýrði frá þessu í dag.

Samkvæmt því sem Saad Yousif al-Muttalibi, starfsmaður Sáttaráðuneytis Íraks, segir eru hóparnir nálægt því að leggja niður vopn. Viðræðurnar eiga sér stað stuttu eftir að varaforseti Íraks sagði að það ætti að ræða við uppreisnarmenn til þess að reyna að koma á friði í landinu.

Ofbeldið í landinu hefur þó ekki minnkað á meðan viðræðum hefur staðið. Átta liðsmenn al-Kaída fórust í bardögum við bandaríska og íraska hermenn í dag. Fimm íraskir lögreglumenn slösuðust í bardaganum sem stóð yfir í fimm klukkustundir.

Muttalibi sagði við fréttamenn BBC að stjórnvöld væru að reyna að fá uppreisnarhópana til þess að berjast gegn al-Kaída og reka þá úr landi. Til þess að svo verði sagði Muttalibi að nauðsynlegt gæti reynst að semja við uppreisnarmennina um eitt og annað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×