Erlent

Unglingar verða sektaðir fyrir að mæta ekki í skólann

Bresk stjórnvöld ætla sér að refsa unglingum á aldrinum 16 til 18 ára sem neita að vera í námi. Samkvæmt nýrri tillögu sem brátt verður lögð fram eiga unglingarnir yfir höfði sér 50 punda sekt eða nokkurra daga samfélagsþjónustu ef þeir mæta ekki í skólann.

Sem stendur er skólaskylda aðeins til 16 ára aldurs. Þessu vilja ráðamenn í Bretlandi breyta til þess að auka samkeppnishæfi landsins í alþjóðasamfélaginu. Krökkum verður þá gert skylt að vera í skóla fram til 18 ára aldurs. Ríkisstjórn Bretlands reiknar með því að eyða um 476 milljónum punda í verkefnið.

Samtök kennara í Bretlandi hafa gagnrýnt tillöguna harkalega og ekki síst þar sem að nú er ábyrgðinni velt af foreldrum og yfir á herðar ungmennanna. Einnig segja þeir að gera þá sem ekki vilja ganga í skóla að glæpamönnum sé langt frá því að vera rétta leiðin. Þeir segja að unglingar sem eru í vandræðum, sem er einmitt hópurinn sem á að ná til, eigi eftir að fjarlægjast menntakerfið enn frekar ef tillagan verður að lögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×