Erlent

Loftárás bætir við fleiri óvissuþáttum

Þrír týndu lífi og 16 særðust í loftárás Tamíl-tígra á herflugvöll nærri Colombo, höfuðborg Srí Lanka, í gærkvöldi. Þetta er í fyrsta sinn sem tígrarnir gera loftárás og segir upplýsingafulltrúi norræna vopnahléseftirlitsins þetta bæta við fleiri óvissuþáttum í landinu.

Tvær litlar flugvélar voru notaðar í árásinni og vörpuðu þær tveimur sprengjum á stæði þar sem flugvélar og herþyrlur eru geymdar. Alþjóðaflugvellinum í Colombo, sem stendur við herflugvöllinn, var lokað tímabundið eftir árásina, en hann varð þó ekki fyrir skemmdum. Skelfing greip um sig á flugvellinum þegar sprengingarnar heyrðust og var flugum bæði til og frá honum aflýst og vegum í nágrenninu lokað. Engir óbreyttir borgarar týndu lífi eða særðust í árásinni en þrír á herflugvellinum féllu.

Þorfinnur Ómarsson, upplýsingafulltrúi norræna vopnahléseftirlitsins á Srí Lanka, segir atburði gærdagsins vissulega bæta við óvissuþáttum. Það hafi verið vita hvernig flugflota stjórnarherinn hefði yfir að ráða og hann væri mun fullkomnari en þær vélar sem tígrarnir notuðu í gær. Ekki hafi verið vitað fyrr en í gær hverju þeir hefðu yfir að ráða.

Þorfinnur segir stjórnvöld á Srí Lanka hafa fordæmt aðgerðir tígranna í gær og haldið því fram að þeir hafi ekki alþjóðleg leyfi til að nota þessa flugvélar. Í yfirlýsingu frá tígrunum segir að stjórnarherinn megi búast við álíka árásum í nánni framtíð.Tígrar réðust áður á flugvöllinn árið 2001, þá fórust 18 og þeim tókst að þurrka út um helming flugflota stjórnarhersins.

Mikið hefur verið um átök í landinu en vopnahlé hefur þó verið í gildi þar síðan í febrúar 2002. Þrátt fyrir það hafa rúmlega 4.000 manns týnt lífi í átökum síðustu 15 mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×