Erlent

Kabila ver ákvörðun sína um beita hernum

Joseph Kabila, forseti Kongó (Austur-Kongó).
Joseph Kabila, forseti Kongó (Austur-Kongó). MYND/AP
Joseph Kabila, forseti Kongó, hefur varið þá ákvörðun sína að beita hernum gegn vopnuðum fylgismönnum Jean-Pierre Bemba í síðustu viku. Að minnsta kosti 150 manns létu lífið í átökunum í höfuðborginni Kinshasa.

„Það varð að koma á friði á ný, sama hvað það kostaði." sagði Kabila við fréttamenn. Hann hefur einnig neitað að ræða við Bemba um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir frekari átök.

Kabila bar sigurorð af Bemba í forsetakosningum í október á síðasta ári. Síðan þá hefur Bemba haft rúmlega þúsund vopnaða menn á sínum snærum en Kabila hafði skipað honum að sameina þá stjórnarhernum. Bemba þráaðist við og þegar frestur stjórnvalda rann út var stjórnarherinn sendur gegn um mönnum Bemba.

Bemba leitaði sér hælis í sendiráði Suður-Afríku þar sem hann óttaðist um líf sitt í átökunum. Stuttu seinna gáfu stjórnvöld í Kongó út handtökuskipun á hendur Bemba og sögðu hann hafa gerst sekan um landráð. Sem fyrrum varaforseti í millibilsstjórn Kongó á Bemba rétt á að hafa 15 vopnaða lífverði á sínum snærum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×