Erlent

Gerðu árás á bækistöðvar hermanna

Bandarískir hermenn á ferð í útjaðri Fallujah.
Bandarískir hermenn á ferð í útjaðri Fallujah. MYND/AFP

Uppreisnarmenn í Írak gerðu í dag árás á bækistöð bandarískra hermanna við Fallujah í dag. Þeir reyndu að keyra tvo bíla, fulla af sprengiefnum, inn fyrir hlið stöðvarinnar á sama tíma og um 30 vígamenn gerðu áhlaup á hana. Bandarísku hermönnunum tókst að hrinda árásinni. Árásin er talin óvenjuleg þar sem uppreisnarmenn ráðast ekki venjulega í svo stórum hópum á bækistöðvar hermanna.

Fyrir utan bílana tvo sem voru hlaðnir sprengiefni notuðu þeir sprengjuvörpur og hríðskotabyssur. 15 uppreisnarmenn létu lífið í árásinni og um átta bandarískir hermenn slösuðust í henni. Talið er að uppreisnarmennirnir hafi verið tengdir al-Kaída.

Fallujah er borg í Anbar héraði sem er í vesturhluta Írak en það er heimasvæði súnní múslima. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, ætlar sér einmitt að senda þúsundir hermanna þangað til þess að binda endi á þá ógnaröld sem þar ríkir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×