Erlent

Velgja hafmeyjunni undir uggum

Íslenskt listaverk á garðbekk í dönskum almenningsgarði velgja Litlu hafmeyjunni undir uggum. Danskur listaverkasali segir verkið, sem er eftir Steinunni Þórarinsdóttur, hafa hlotið meiri athygli undanfarna mánuði en frægasta kennimerki Danmerkur.

Rúmlega hálfrar aldar gömul stytta af Winston Churchill í miðjum garðinum. Brúnaþungur Churchill hefur í áraraðir litið niður á Litlu hafmeyjuna í nágrenninu - ja, vegna smæðar hennar það er að segja. En Danir eiga líka stóra minnisvarða - til dæmis um gamalt kóngafólk. Undir lok ferðamannatímans síðasta sumar héldu íslenskar styttur Steinunnar Þórarinsdóttur innreið sína í Churchill garðinn.

Listaverkin voru lánuð til Kaupmannahafnarborgar. Danskur umboðsmaður Steinunnar segir að hjá borgaryfirvöldum sé áhugi fyrir því að kaupa verkin, og að fjármögnun sé til skoðunar. Líkt og með Litlu hafmeyjuna er vinsælt hjá ferðamönnum að mynda sig með íslensku styttunum.

Sé Litla hafmeyjan með minnimáttarkennd getur hún glaðst yfir því að brátt verður lengra milli hennar og íslensku verkanna. Stytturnar verða færðar til innan borgarmarkanna vegna fyrirhugaðrar veitingasölu á þessu horni í Churchill garðinum í Kaupmannahöfn. En tíminn einn leiðir í ljós hvort borgin rúmi bæði verk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×