Erlent

Sólgos talin hafa áhrif á loftslagsbreytingar

Æ fleiri vísindamenn eru að komast á þá skoðun að samspil sólgosa og geimryks hafi talsvert að segja um loftslagsbreytingar á jörðinni. Þeir telja að fylgni sé á milli hlýnunar jarðar og mikilla sólgosa undanfarna áratugi.

Ekki er lengur um það deilt að hitastig jarðar hefur hlýnað óeðlilega mikið síðastliðna áratugi og sveiflur í veðurfari orðið öfgakenndari. Meginþorri vísindamanna er þeirrar skoðunar að þessar breytingar séu að miklu leyti af manna völdum en sitthvað fleira gæti haft áhrif í þessu sambandi. Einn þeirra þátta sem æ fleiri vísindamenn beina nú sjónum sínum að er samspil svonefndra sólgosa og ýmis konar geimryks sem kemst inn í gufuhvolf jarðar. Röskun á þessu samspili hefur áður valdið breytingum á loftslagi plánetunnar.

Eftir því sem sólgos verða tíðari eiga geimagnirnar erfiðara með að komast inn í gufuhvolfið. Skýjamyndun er ekki eins ör og við það hækkar hitastigið. Til að sýna fram á þetta hafa stjarneðlisfræðingar við Geimrannsóknastofnun Danmerkur búið til líkan af sólkerfinu sem sýnir hvernig geislunin vegna gosanna bægir ögnunum frá. Þetta ferli segja vísindamennirnir að sé einmitt í gangi núna og því hefur hækkun hitastigs á jörðinni orðið ennþá örari en ella.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×