Fótbolti

Ítalía: Kaflaskiptur leikur hjá Inter og Palermo

Adriano skoraði jöfnunarmark Inter í dag
Adriano skoraði jöfnunarmark Inter í dag NordicPhotos/GettyImages
Fátt getur komið í veg fyrir að Inter Milan hampi meistaratitlinum á Ítalíu í ár þrátt fyrir að liðið næði aðeins jafntefli gegn Palermo á heimavelli sínum í dag 2-2. Roma styrkti stöðu sína í öðru sætinu með því að bursta Sampdoria 4-0.

Leikur Inter og Palermo var ótrúlega kaflaskiptur, því gestirnir slógu þögn á áhorfendur í Mílanó með tveimur mörkum í fyrri hálfleik og hefði forysta liðsins raunar geta verið stærri fyrir hlé. Heimamenn komu hinsvegar eins og öskrandi ljón til síðari hálfleiks og þar lagði Luis Figo upp mörk fyrir þá Julio Cruz og Adriano. Inter forðaði sér því frá fyrsta tapinu á leiktíðinni, en hefur þægilegt 16 stiga forskot á Roma og stefnir á að vinna sinn fyrsta titil með hefðbundnum hætti frá því árið 1989.

Roma hristi af sér hrunið á Old Trafford í Meistaradeildinni og burstaði Sampdoria 4-0 þar sem Francesco Totti skoraði tvö mörk og lagði upp eitt. Rómverjar eru því svo gott sem búnir að tryggja sér Meistaradeildarsætið, því grannar þeirra í Lazio náðu aðeins 2-2 jafntefli gegn Ascoli og eru níu stigum á eftir í þriðja sætinu. Milan er í fjórða sætinu eftir auðveldan sigur á Messina á Sikiley þar sem Kaka, Ronaldo og Favalli voru á skotskónum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×