Toronto Raptors vann í nótt fyrsta sigur sinn í úrslitakeppni NBA síðan árið 2002 þegar liðið skellti New Jersey á heimavelli 89-83 og jafnaði metin í einvíginu í 1-1. Anthony Parker skoraði 26 stig fyrir heimamenn og Chris Bosh skoraði 25 stig og hirti 13 fráköst. Þjálfarinn Sam Mitchell var í gær útnefndur þjálfari ársins í deildinni og fékk verðlaunagripinn afhentan fyrir leikinn.
Vince Carter skoraði 19 stig og hirti 11 fráköst fyrir New Jersey gegn sínum gömlu félögum og Bostjan Nachbar skoraði 17 stig. Hann klikkaði úr þriggja stiga skoti úr horninu 8 sekúndum fyrir leikslok sem hefði jafnað leikinn. Jason Kidd skoraði 14 stig, hirti 11 fráköst og gaf 7 stoðsendingar fyrir New Jersey. Næsti leikur liðanna er í New Jersey á föstudagskvöldið.