Næsti leikur í einvíginu fer fram í Dallas á þriðjudagskvöldið og verður sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni. Það er leikur sem enginn körfuboltaáhugamaður má láta framhjá sér fara. Aðeins tvisvar í sögu NBA hefur það gerst að liðið í 8. sæti inn í úrslitakeppni hafi sigrað liðið í 1. sæti - en það hefur aldrei gerst síðan fjóra sigra þurfti til að komast áfram í fyrstu umferðinni. Þakið var við það að rifna af Oracle Arena höllinni í Oakland í gær þar sem enn eitt áhorfendametið var sett og stemmingin ólýsanleg.
Golden State hefur þegar náð að koma öllum körfuboltaheiminum á óvart með hetjulegri framgöngu sinni og Dallas-liðið er komið í bullandi vandræði í seríunni þó það eigi næsta leik á heimavelli. Dallas hafði frumkvæðið framan af leik í nótt, en heimamenn náðu alltaf að koma til baka þrátt fyrir að þeir lentu undir.

Jerry Stackhouse skoraði 24 stig af bekknum hjá Dallas og hristi af sér slenið sem hefur verið á honum í fyrstu leikjunum. Dirk Nowitzki skoraði 23 stig, þar af tvo þrista í blálokin sem gáfu Dallas veika von, en hann var annars langt frá sínu besta og á erfitt uppdráttar gegn varnarleik Golden State. Nowitzki hirti 15 fráköst í leiknum. Josh Howard hélt Dallas inni í leiknum í fyrri hálfleik þegar hann skoraði 20 af 22 stigum sínum. Jason Terry skoraði 19 stig.