Erlent

Bush beitir neitunarvaldi

Jónas Haraldsson skrifar
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna.
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna. MYND/AP
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, beitti í nótt neitunarvaldi gegn frumvarpi Bandaríkjaþings sem hefði bundið aukafjárveitingu til hersins við brottför hermanna frá Írak. 

Bush sagði á fréttamannafundi eftir ákvörðun sína að það að ákveða brottfarardag frá Írak myndu verða stór mistök. Hann sagði líka að það væri nauðsynlegt að herinn myndi fá aukafjárveitinguna til þess að nýja áætlunin um fjölgun hermanna í Írak myndi bera árangur. Bush sagði því að hann myndi reyna að ná samkomulagi við þingleiðtoga um fjárveitinguna.

Þetta er aðeins í annað sinn sem Bush beitir neitunarvaldi sínu en það er nýjasta útspil hans í baráttunni við bandaríska þingið. Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild þingsins, sagði frumvarpið endurspegla vilja bandarísku þjóðarinnar. Samkvæmt því átti að hefja brottflutning hermanna frá Írak þann 1. október næstkomandi og honum ljúka fyrir 31. mars á næsta ári.

Demókratar afhentu Bush frumvarpið í gær. Þá voru nákvæmlega fjögur ár liðin frá því að Bush lýsti því yfir að öllum meiriháttar hernaðaraðgerðum í Írak væri lokið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×