Erlent

Fundað um framtíð Íraks

Jónas Haraldsson skrifar
Sendinefndir Íraks og Bandaríkjanna hittust í gærkvöldi.
Sendinefndir Íraks og Bandaríkjanna hittust í gærkvöldi. MYND/AFP
Alþjóðleg ráðstefna um framtíð Íraks fer nú fram í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi. Á meðal þátttakenda eru Bandaríkin, Íran og Sýrland. Búist er við því að löndin sem ráðstefnuna sækja eigi eftir að sættast á fimm ára áætlun sem krefst endurbóta fyrir stuðning.

Áætlunin er studd af Sameinuðu þjóðunum sem og þeim rúmlega sextíu þjóðum sem ráðstefnuna sækja. Hún á að lækka skuldir Íraks og afla stuðnings við lýðræðisferlið í landinu.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur gefið til kynna að hún gæti átt fundi með íranska og sýrlenska utanríkisráðherranum. Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, hefur sagt að hann muni fagna hreinskilnum viðræðum við Bandaríkjamenn.

Þó er talið óvíst að beinar viðræður á millil landanna þriggja muni leiða til nokkurs. Bandaríkjamenn saka Írana enn um að ætla að koma sér upp kjarnavopnum og ásaka Sýrlendinga um að hleypa erlendum vígamönnum inn í Írak. Ahmadinejad sagði einnig fyrir ráðstefnuna að það væri til einskis að reyna að sannfæra Írana um að hætta við kjarnorkuáætlun sína.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×