Það verða spænsku liðin Sevilla og Espanyol sem leika til úrslita í Evrópukeppni félagsliða þetta árið, en þau unnu bæði góða sigra í síðari leikjunum í undanúrslitunum í kvöld. Sevilla lagði Osasuna 2-0 og samtals 2-1 og Espanyol lagði Werder Bremen 2-1 á útivelli og samanlagt 5-1.
Sevilla mun því leika til úrslita í keppninni annað árið í röð, en liðið er núverandi Evrópumeistari félagsliða. Liðið mætti til leiks gegn löndum sínum án nokkurra lykilmanna en það kom ekki að sök. Luis Fabiano skoraði fyrra markið á 37. mínútu og Renato það síðara í upphafi síðari hálfleiks.
Bremen eygði veika von um að komast áfram í keppninni þrátt fyrir 3-0 skell gegn Espanyol og lifnuðu þær vonir enn frekar þegar heimamenn komust yfir strax eftir þrjár mínútur í kvöld með marki Hugo Almeida. Þessar vonir urðu þó nánast að engu á 19. mínútu þegar framherjinn Miroslav Klose lét reka sig af velli með sitt annað gulas spjald og þeir Ferran Corominhas og Jesus Maria Lacruz skoruðu tvívegis fyrir spænska liðið.