Erlent

Chavez hótar að þjóðnýta banka

Hugo Chavez, forseti Venesúela, er mikill vinur Fidel Castro, forseta Kúbu.
Hugo Chavez, forseti Venesúela, er mikill vinur Fidel Castro, forseta Kúbu. MYND/AFP
Forseti Venesúela, Hugo Chavez, hótaði því í gær að þjóðnýta banka landsins sem og stærsta stálframleiðanda þess. Hann sakaði þau um óeðlilega viðskiptahætti.

„Einkareknir bankar verða að veita því forgang að fjármagna iðnað í Venesúela á ódýran hátt." sagði Chavez. „Ef bankarnir eru ekki sammála þessu, er betra að þeir fari, eftirláti mér bankana, við þjóðnýtum þá og nýtum þá alla til þess að vinna að þróun iðnaðar í landinu í stað þess að þeir séu í spákaupmennsku og gróðastarfsemi."

Það var ekki ljóst hvort að Chavez væri eingöngu að tala um venesúelska banka eða líka alþjóðlega banka með útibú í Venesúela.

Chavez varaði líka við því hann myndi þjóðnýta stærsta stálfyrirtæki landsins, sem er í eigu fyrirtækis sem staðsett er í Lúxemborg. Chavez sagði fyrirtækið selja of mikið út fyrir landsteinana sem neyddi innlend fyrirtæki til þess að kaupa stál erlendis frá. „Ef Sidor... samþykkir ekki að breyta þessu ferli samstundis, skylda þeir mig til þess að þjóðnýta það."

Chavez hóf að þjóðnýta fyrirtæki í landinu í janúar síðastliðnum. Til dagsins í dag hafa símafyrirtæki, rafmagnsfyrirtæki og nokkrar olíustöðvar verið þjóðnýttar. Hann segir þetta allt hluta af því að gera Venesúela að sósíalísku ríki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×