Erlent

Rice: Ekkert kalt stríð í uppsiglingu

Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna hafnar því að nýtt kalt stríð sé í uppsiglingu en hún kom til Rússlands í dag. Rússar eru uggandi yfir uppsetningu bandarísks eldflaugavarnakerfis í Póllandi sem þeir telja að sé beint gegn sér.

Uppsetning eldflaugakerfisins umdeilda hefur staðið fyrir dyrum í nokkurn tíma en Bandaríkjamenn segja að tilgangur þess sé að verjast árásum langdrægra eldflauga úr Mið-Austurlöndum, sérstaklega frá Íran. Hugmyndin er að koma upp öflugri ratsjárstöð í Tékklandi sem reiknar út feril slíkra flauga og skotpöllum í Póllandi þaðan sem flaugunum verður svo grandað. Formlegar viðræður Bandaríkjamanna og Pólverja um þetta hófust í dag. Um svipað leyti lenti Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Moskvu en á morgun mun hún funda með þeim Vladimir Pútín Rússlandsforseta og Sergei Lavrov utanríkisráðherra. Uppsetning áðurnefnd eldflaugakerfis er mikill þyrnir í augum Rússa enda telja þeir því ekki síður beint gegn sér en Írönum. Þetta er ekki eina ágreiningsmál Rússa og Bandaríkjamanna um þessar mundir, þeir síðarnefndu hafa til dæmis gagnrýnt framgöngu ráðsherranna í Kreml gegn þeim sem gagnrýnd hafa frammistöðu þeirra.

Í samtölum við fjölmiðla í dag vísaði Rice því á bug að nýtt kalt stríð væri að bresta á eins og sumir stjórnmálaskýrendur fullyrða en viðurkenndi þó að samskipti ríkjanna væru verulega stirð um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×