Erlent

Bruni í Björgvin

Guðjón Helgason skrifar

Gríðarlegir olíueldar loguðu nærri olíuhreinsunarstöð í Björgvin í Noregi í dag. Mikil sprenging varð í olíutanki. Vinnslustöðin hefur verið notuð sem dæmi um þá stöð sem myndi rísa á Vestfjörðum ef af yrði.

Mikil sprenging varð í olíutanki í Sløvåg skammt frá olíuvinnslustöðinn í Mongstad nærri Björgvin í Noregi um níu í morgun. Eldsúlurnar stóðu 50 til 60 metra í loft upp og mikinn eitraðan reyk lagði yfir svæðið. Næsta nágrenni var þegar rýmt. Eldurinn var slökktur um tveimur tímum eftir sprenginguna. Enginn týndi lífi og ekki vitað til þess að nokkur hafi slasast alvarlega. Tveir slökkviliðsmenn fengu þó reykeitrun. Að sögn norska ríkisútvarpsins geyma tankarnir þar sem sprengingin varð meðal annars olíu í tankskipum sem hafa farið um og óhreinsaða olíu úr lindum. Sá sem sprakk mun hafa verið í viðgerð.

Olíutankarnir í Sløvåg standa nærri olíuvinnslustöð Statoil í Mongstad en hún hefur verið nefnd sem fyrirmynd að olíuvinnslustöð sem nú er rætt um að reisa á Vestfjörðum.

Af þeim framkvæmdum er það að frétt að kynningarfundur um olíuhreinsistöðina var haldinn í Þórunarsetrinu á Ísafirði í fyrrakvöld. Þar var Fjóðungssambandi Vestfjarða falið að stýra undirbúningsvinnu vegna byggingu hennar áður en hægt verði að taka afstöðu til þess hvort af henni verði. Nefndin verður skipuð af Fjórðungssambandinu, sveitarfélögunum, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, framkvæmdaaðilanum Íslenskum hátækniðnaði, Fjárfestingarstofu og mögulega iðnaðarráðuneytinu. Gerð verður staðarvalsathugun og samfélagsgreining og verði ákveðið að fara lengra myndi koma til umhverfismat og annað tengt því. Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambandsins, sagði í samtali við fréttastofu að horft væri til staðsetning aí Arnar- eða Dýrafirði. Hann segir ekki gefinn langan tíma í verði og það því unnið hratt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×