Erlent

Herinn settur í viðbragðsstöðu

Viktor Jústsjenkó, forseti Úkraínu, setti hersveitir sínar í viðbragðsstöðu í dag og skipaði þeim að halda til höfuðborgarinnar Kænugarðs. Sáttaumleitanir á milli þeirra Viktors Janukovits forsætisráðherra hafa engan árangur borið.

Stjórnmálaástandið í Úkraínu hefur verið afar ótryggt undanfarnar vikur eftir að Jústsjenkó forseti leysti upp þingið í apríl þar sem erkióvinur hans Viktor Janukovits forsætisráðherra hafði töglin og hagldirnar. Nú virðist það komið að suðupunkti. Segja má að atburðarás síðustu klukkustunda hafi hafist í gær þegar Jústjenkó tók stjórn hersveita innanríkisráðuneytisins í sínar hendur, þvert á stjórnarskrá landsins að mati forsætisráðherrans. Degi áður hafði forsetinn rekið ríkissaksóknara landsins úr embætti. Jústsjenkó og Janukovits sátu á rökstólum í alla nótt og rifust um hvenær halda skyldi aðrar þingkosningar. Þeir funduðu aftur í dag en án nokkurs árangurs. Stuðningsmenn þeirra beggja hafa mótmælt á götum úti undanfarna daga. Því skipaði Jústsjenkó áðurnefndu herliði innanríkisráðuneytisins skömmu áður en fundur þeirra Janukovits hófst að halda til höfuðborgarinnar og vera þar í viðbragðsstöðu ef ástandið færi úr böndunum. Í fyrstu var óttast að valdarán væri í uppsiglingu en talsmaður öryggisráðs landsins lýsti því yfir síðdegis að herliðið hefði einungis verið kallað til í öryggisskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×