Erlent

Leiðtogar ESB ánægðir með stjórnarsáttmála

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Leiðtogar Evrópusambandsins náðu samkomulagi undir morgun um stjórnarsáttmála fyrir aðildarlöndin 27. Málamiðlun var gerð um að fresta breytingu á kosningavægi landanna miðað við höfðatölu til ársins 2014. Breytingin mun draga töluvert úr vægi Pólverja og það voru þeir afar ósáttir við.

Lech Kaczynski forseti Póllands sagði sameiginlegt markmið leiðtoganna að lokum hafa ráðið úrslitum.

Gert er ráð fyrir að lokið verði við gerð sáttmálans á þessu ári, en meginuppistaða hans er úr stjórnarskránni sem var hafnað af kjósendum í Frakklandi og Hollandi árið 2005. Nýi sáttmálinn gerir ráð fyrir að kosinn verði forseti sambandsins til lengri tíma og að ráðinn verði utanríkisstjóri sambandsins. Áður en sáttmálinn tekur gildi árið 2009 þarf hvert aðildarland fyrir sig að samþykkja hann.

Bretar hafa jafnan verið tvístígandi yfir aðild að sambandinu. Tony Blair forsætisráðherra sagði hag Breta liggja í því að vera leiðandi í Evrópusamstarfi.

Angela Merkel kanslari þýskalands og forseti Evrópusambandsins sagði að lending samkomulagsins hefði ekki verið þrautalaus, en með því væri búið að yfirstíga mikilvæga hindrun vegna hinnar umdeildu stjórnarskrár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×