Fótbolti

Kaka keyptur til Real fyrir 6,7 milljarða?

NordicPhotos/GettyImages

Talsmaður miðjumannsins Kaka hjá AC Milan segir hann hreint ekki vera búinn að útiloka að ganga í raðir Real Madrid á Spáni í sumar. Hann segir leikmanninn kunna vel við sig í Mílanó, en segir spænska liðið þegar vera búið að gera Kaka tilboð "sem hann geti ekki hafnað."

"Kaka útilokar ekki að fara til Real Madrid og ég vil heldur ekki útiloka að hann fari þangað í sumar. Hann verður mjög ánægður hvort sem hann spilar með Milan eða Real Madrid," sagði talsmaður Kaka. Hann segir að ef af kaupum Real verður yrðu það stærstu kaup í sögu knattspyrnunnar til þessa - enn stærri en 75 milljón evra kaup Real á Zinedine Zidane frá Juventus árið 2001.

Spænskir fjölmiðlar hafa gert því skóna að forseti Real Madrid sé tilbúinn að greiða 80 milljónir evra fyrir Kaka, eða 6,7 milljarða króna. Ramon Calderon hefur verið mikill aðdáandi Kaka allar götur síðan hann settist á forsetastól hjá Real og hefur heitið þess að kaupa hann frá Milan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×