Erlent

Gæti eignast hálfsystkini sín

Kanadísk kona hefur fryst egg úr sjálfri sér svo að dóttir hennar, sem er með sérstakan erfðagalla og er ófær um að eignast börn, geti notað þau og eignast börn síðar á lífsleiðinni. Ef stelpan ákveður að nota eggin mun hún í raun eignast hálfbróður sinn eða systur.

Töluverð gagnrýni hefur heyrst vegna þessa en læknar segja að móðirin sé aðeins að sýna ást sína og umhyggju í verki. Einnig benda þeir á að dóttirin þurfi ekki að nota eggin móður sinnar, heldur hafi hún aðeins möguleikann á því.

Dóttirin er haldin sjaldgæfum sjúkdómi sem heitir Turner heilkenni. Móðirin er 35 ára og ákvað ekki að frysta egg sín fyrr en að vel athuguðu máli. Hún segir að hún hugsi þetta eins og að hún væri að gefa dóttur sinni líffæri, til að mynda nýra.

Gagnrýnendur benda hins vegar á að ef dóttirin ákveður að nýta sér egg móður sinnar mun barnið verða systkini móður sinnar og barn ömmu sinnar. Það geti síðan haft ýmsar afleiðingar á geðheilsu þess síðar meir. Einnig segja þeir að hætta þurfi að skilgreina konur og hamingju þeirra út frá barneignarhlutverki þeirra þar sem konur geti vitanlega lifað hamingjusömu lífi án þess að eignast börn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×