Fótbolti

Juventus ekki á eftir Lampard

Ranieri er ekki að reyna að kaupa Frank Lampard til Juve
Ranieri er ekki að reyna að kaupa Frank Lampard til Juve NordicPhotos/GettyImages

Claudio Ranieri segir Juventus ekki vera á höttunum eftir miðjumanninum Frank Lampard hjá Chelsea eins og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum. Hann segir að þó Lampard sé frábær leikmaður, vanti Juventus aðeins miðvörð í leikmannahóp sinn fyrir átökin á næstu leiktíð.

Framtíð Lampard þykir óráðin eftir að hann neitaði að skrifa undir nýjan samning sem honum var boðinn hjá Chelsea og var hann í kjölfarið orðaður við Barcelona og Juventus. Það var einmitt Claudio Ranieri, þjálfari Juventus, sem keypti Lampard til Chelsea þegar hann stýrði liðinu á sínum tíma.

"Frank er frábær leikmaður og ég veit það betur en flestir, en það eina sem okkur vantar í hópinn fyrir næstu leiktíð er miðvörður," sagði Ranieri sem keypti Lampard frá West Ham fyrir 11 milljónir árið 2001.

"Margir sögðu að Frank væri ekki peninganna virði þegar ég keypti hann á sínum tíma, en hann lagði hart að sér og varð einn besti miðjumaður heims. Ég var gríðarlega stoltur af honum og við áttum frábært samstarf," sagði Ranieri. Hann er ekki á flæðiskeri staddur með miðjumenn hjá Juventus þar sem hann hefur þá Pavel Nedved, Mauro Camoranesi og Christiano Zanetti og fékk þar að auki þá Tiago frá Lyon og Sergio Bernardo Almiron frá Empoli í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×