Erlent

Breska lögreglan finnur sjálfsmorðsbréf

MYND/AP

Breska lögreglan hefur fundið sjálfsmorðsbréf í tengslum handtöku tveggja manna sem lögðu sprengjuhlöðnum bíl við flugvöllinn í Glasgow síðastliðinn laugardag, að því er CNN fréttastofan greinir frá.

Ekki er vitað hvar bréfið fannst né hver skrifaði það. Mennirnir tveir, sem báðir eru læknar, heita Bilal Abdulla og Khalid Ahmed. Þeir eru einnig grunaðir um að hafa komið fyrir tveimur bílasprengjum í London síðastliðinn föstudag. Ahamed hlaut brunasár í tilræðinu á laugardag. Hann liggur á spítala í Glasgow og er ástand hans alvarlegt.

Abdulla og fimm aðrir sem handteknir hafa verið í tengslum við sprengjutilræðin eru nú í yfirheyrslum hjá bresku lögreglunni. Auk þess er Mohamed Haneef indverskur læknir í haldi Áströlsku lögreglunnar.

Afhjúpun sjálfsmorðsbréfsins kemur á sama tíma og fjölmiðlar greina frá því að Leyniþjónustan hafi haft upplýsingar um einhverja af þeim átta grunuðu. Leyniþjónustan virðist einnig hafa fengið vísbendingar um mögulegar árásir en varaði ekki stjórnvöld við. Upplýsingarnar hafa þó auðveldað lögreglunni að hafa uppi á þeim grunuðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×