Erlent

Nektarhlaupið í Pamplona

Jónas Haraldsson skrifar

Hundruð dýraverndunarsinna hlupu nærri naktir á götum borgarinnar Pamplona á Spáni í gær til þess að mótmæla hinu árlega nautahlaupi í borginni.

Mótmælin voru skipulögð af bandarísku dýraverndunarsamtökunum PETA. Hlaupararnir hrópuðu slagorð og héldu margir hverjir á rauðum klútum. PETA fullyrti að fleiri en eitt þúsund manns frá fleiri en 30 löndum hefðu tekið þátt í mótmælunum sem eru orðinn árlegur viðburður. Upphaflega átti hlaupið að vera nektarhlaup en mótmælendur hafa bætt á sig flíkum til þess að særa ekki blygðunarkennd íbúa.

Nautahlaupið í Pamplona er árlegur viðburður og hefur farið fram allt frá miðöldum. Snemma morguns hópast hundruð manna saman í þröngri götu og sex nautum er síðan sleppt lausum við enda hennar. Fólkið hleypur síðan sem fætur toga átta hundruð metra leið á nautaatsvöllinn í borginni þar sem þau takast á við nautabana síðar um daginn. Hlaupið fer fram í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×