Erlent

Flugfélag til sölu -ódýrt

Óli Tynes skrifar
Enginn vill kaupa Alitalia.
Enginn vill kaupa Alitalia.

Ítalir eru nú svo örvæntingafullir að þeir eru tilbúnir til þess að selja ríkisflugfélagið Alitalia hverjum sem er, hvort sem það eru Eskimóar eða Kínverjar. Evrópuráðherra landsins, Emma Bonino lét þessi orð falla á blaðamannafundi þar sem fjallað var um flugfélagið.

Gengdarlaust tap hefur verið á Alitalia undanfarin ár og fyrir sjö mánuðum var félagið sett á markað. Vonast var til að einkaaðilar gætu bjargað því frá. Margir stórir aðilar urðu til þess að bjóða í félagið, meðal annars rússneska flugfélagið Aeroflot.

Þessir bjóðendur drógu þó í land hver af öðrum og báru meðal annars fyrir sig óaðgengileg skilyrði sem sett voru fyrir sölunni. Meðal annars var þess krafist að félagið myndi halda sínu ítalska yfirbragði. Nú er svo komið að enginn kaupandi er eftir, sem er dálítið vandræðalegt fyrir stjórnvöld á Ítalíu.

Annar ráðherra tjáði sig um Alitalia í síðustu viku. Hann líkti því við sýktan útlim og lagði til að það yrði selt hverjum sem hafa vildi fyrir eina evru, eða þá látið fara á hausinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×