Erlent

Tilraun til að setja heimsmet breyttist í harmleik

MYND/AP

Flugmaður lést þegar hann flaug einshreyfilsvél sinni inn í fjögurra hæða íbúðarhúsnæði í Basal í Sviss í dag. Flugmaðurinn Hans Georg Schmid hugðist fljúga vél sinni yfir Atlantshafið í einni lotu. Hann lagði af stað frá flugvellinum í Basal og var ferðinni heitið til Bandaríkjanna.

Ferðin var farin í minningu Charles Lindbergh sem fyrstur flaug einshreyfilsvél yfir Atlantshafið árið 1927. Eins hugðist flugmaðurinn freista þess að setja heimsmet og fljúga vélinni 8.000 kílómetra í einni lotu og var áætlað að ferðin tæki um 30 tíma.

Vélinni hafði einungis verið flogið í skamman tíma þegar slysið varð. Hún brotlenti á húsinu og endaði á leikvelli fyrir neðan þar sem börn voru að leik. Vélin var full af eldsneyti og kviknaði bæði í húsinu og leikgrind á jörðu niðri. Sex manns á jörðinni slösuðust minniháttar en þó engin börn. Enn er ekki vitað hvað olli slysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×