Erlent

Tileinka íröksku þjóðinni sigur sinn í undanúrslitum Asíukeppninnar

Írakska landsliðið í fótbolta tileinkaði sigur sinn í undanúrslitum Asíukeppninnar íröksku þjóðinni. Liðið vann sigur á Suður-Kóreu í dag á eins dramatískan hátt og hægt er í fótbolta, eða í vítaspyrnukeppni. Markvörður Íraka, Noor Sabri, var valinn maður leiksins. Hann varði fjórðu vítaspyrnu Suður-Kóreumanna í leiknum.

„Ég vil tileinka öllum Írökum þennan glæsta sigur," sagði Noor. „Við vitum hvernig ástandið er í Írak og minnumst erfiðleikana sem steðja að þjóðinni," bætti hann við. „Þetta er það minnsta sem við getum gert fyrir þjóð okkar," sagði Noor svo að lokum.

Bílsprengja sprakk í dag í hópi Íraka sem voru að fagna sigrinum. 10 létust og fleiri en 20 særðust í sprengingunni. Ekki er vitað hvort að um bílsprengju eða sjálfsmorðssprengjumann var að ræða. Sprengingin varð í Mansour hverfinu í vesturhluta Bagdad.

Að minnsta kosti 16 manns hafa látið lífið í átökum í Írak í dag.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×