Erlent

Aulagangur CIA

Óli Tynes skrifar

Þekktur bandarískur blaðamaður við New York Times hefur skrifað bók um bandarísku leyniþjónustuna, CIA, og fer háðuglegum orðum um ódugnað hennar. Tim Weiner segir að stofnunin sé svo léleg að hún sé ógn við öryggi Bandaríkjanna. Hann nefnir mörg dæmi.

Weiner segir að bæði Kóreustríðið, fall Berlínarmúrsins og hryðjuverkaárásin á Bandaríkin árið 2001, hafi komið CIA í opna skjöldu. Sömu sögu var að segja um innrás Saddams Hussein í Kúveitárið 1990. Weiner segir að þá hafi Rolbert Gates, þáverandi yfirmaður CIA verið í fjölskylduboði.

Einn gestanna spurði Gates hvað hann væri eiginlega að gera þar. "Hvað áttu við," spurði Gates. "Nú innrásina." "Hvaða innrás ?" spurði Gates, sem nú er varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Í bókinni sem heitir Legacy of Ashes segir Weiner frá því að í Kóreustríðinu hafi CIA haft 200 útsendara í Seoul en enginn þeirra talaði kóresku. Stöðvarstjórinn þar komst að þeirri niðurstöðu að allir kóreumennirnir sem þeir réðu sem uppljóstrara hefðu annaðhvort verið handbendi kommúnista eða bara skáldað skýrslur sínar.

Þegar CIA sendi sinn fyrsta njósnara til Sovétríkjanna árið 1953 flekaði húshjálpin hann samstundis. Og þar sem hún var foringi í KGB voru þau ljósmynduð í rúminu, og myndirnar notaðar til að þvinga CIA manninn til samstarfs.

Meðal bestu uppljóstrara CIA í Sovétríkjunum árið 1961 voru blaðasali og þakviðgerðarmaður. Það var því kannski ekki skrýtið að í skýrslu sinni það ár sagði leyniþjónustan að Rússar beindu 500 kjarnorkueldflaugum að Bandaríkjunum. Rétta talan var fjórar.

CIA hefur afþakkað að tjá sig um bók Weiners.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×