Erlent

Við heyrðum ópin og grátinn hvert í öðru

Óli Tynes skrifar
Ashraf Alhajouj.
Ashraf Alhajouj.

Palestinski læknirinn sem var ásamt fimm búlgöskum hjúkrunarkonum í fangelsi í átta ár í Libyu, hefur lýst skelfilegum pyntingum sem þau máttu þola. Fólkið var sakað um að hafa vísvitandi sýkt mörghundruð libysk börn af alnæmi.

Ashraf Alhajouj segir að fyrstu dagana hafi hann verið geymdur í klefa með þrem hundum sem var sigað á hann. Hann segir að fætur sínir séu alsettir örum eftir bit þeirra og hann sé með stór gat á hné. Hann segir frá því að rafmagnsköplum sem búið var að skera plasthlífarnar utanaf hafi verið vafið um kynfæri hans og hann dreginn veinandi eftir gólfinu.

Rafmagnskaplarnir voru einnig notaðir til að gefa honum raflost. "Þeir festu mínuskapalinn á fingur mér og plús kapalinn annaðhvort við eyra eða kynfæri mín. Þegar ég missti meðvitund helltu þeir yfir mig vatni og byrjuðu svo á nýjan leik.

Ashraf segir að hjúkrunarkonurnar hafi einnig verið pyntaðar. Hann hafi margsinnis séð þeim nauðgað. Ein þeirra hafi reynt að skera sig á púls með glerbroti því hún hafi ekki þolað við lengur. Stundum voru þau öll pyntuð í sama herbergi; "Ég sá þær hálfnaktar og þær sáu mig allsnakinn þegar mér voru gefin raflost. Við heyrðum ópin og grátinn hvert í öðru."

Ashraf vísar algerlega á bug ásökunum um að þau hafi vísvitandi smitað börnin. Hann segir að hreinlætismál á sjúkrahúsinu hafi verið í hroðalegum ólestri. "Við höfðum ekki sprautur og sótthreinsunarofninn var ónýtur. Það voru bara ein skæri til þess að klippa á nafnastrengi allra barnanna sem fæddust."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×