Erlent

Obama segist reiðubúinn að fyrirskipa árás á al-Kaída í Pakistan

Barack Obama í dag
Barack Obama í dag MYND/AP

Barack Obama, frambjóðandi í forvali Demókrata til bandarísku forsetakosninganna, sagði í dag að hann væri reiðubúinn til að fyrirskipa hernaðaraðgerðir gegn al-Kaída í Pakistan án samráðs við stjórnvöld þar í landi ef hann kæmist til valda.

Omaba lét þessi orð falla í ræðu þar sem hann greindi frá stefnu sinni í utanríkismálum. Hann sagði Pervez Musharraf, forseta Pakistans, verða að beita sér frekar í því að binda enda á hryðjuverkastarfsemi í landinu. "Að öðrum kosti getur Pakistan átt von á hernaðarinnrás og að dregið verði úr fjárhagsaðstoð til landsins," sagði Obama.

Talsmaður í utanríkisráðuneyti Pakistans sagði að hótanir gegn al-Kaída ætti ekki að nota til að skora stig í kosningabaráttu og að frambjóðendur ættu að sýna ábyrgð.

Fyrr í mánuðinum sagði Hillary Clinton, keppinautur Obama, hann vera barnalegan þegar kæmi að utanríkismálum. Það gerði hún í kjölfar þess að Obama sagðist vilja hitta leiðtoga ríkja á borð við Kúbu, Norður-Kóreu og Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×