Erlent

Ókeypis heróín handa dönskum fíklum?

MYND/365

Meirihluti danskra þingflokka vilja gera tilraun með að gefa langt leiddum heróínsjúklingum ókeypis heróín. Markmiðið er að draga úr ofneyslu, vændi og götuglæpum. Hugmyndin er að langt leiddir fíknefnaneytendur geti komið á sjúkrahús tvisvar til þrisvar í viku og fengið heróínskammt undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks, að því er fram kemur á fréttavef sænska dagblaðsins Dagens nyheter.

Stjórnmálaflokkurinn Danske Folkeparti, sem áður var á móti hugmyndinni, hefur nú skipt um skoðun sem gerir það að verkum að meirihluti þingflokka er orðinn fylgjandi henni. Þingmenn Folkeparti hyggjast nú þrýsta á ríkisstjórnarflokkana Venstre og Íhaldsflokkinn að taka sömu afstöðu.

Heilbrigðisyfirvöld hafa sagt aðgerðirnar of dýrar og þeir þingflokkar sem eru mótfallnir hugmyndinni segja að mögulega verði litið svo á að hörð fíkniefni séu orðin lögleg.

Þeir sem tala með hugmyndinni benda á að bæði glæpir og ofneysla hafi minnkað í löndum þar sem ríkið veitir ókeypis heróín fyrir langt leidda. Í því sambandi eru nefnd lönd á borð við Holland, Þýskaland og Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×