Erlent

Hundur skaut eigandann í bakið

Óli Tynes skrifar
Frændi byssubófans.
Frændi byssubófans.

Hundurinn King George er afskaplega ljúfur og vingjarnlegur og tekur vel á móti gestum sem koma til húsbónda hans í Memphis í Tennessee. King George er sjötíu kílóa risi af tegundinni Great Dane. Það gekk því mikið á hjá honum þegar dyrabjöllunni var hringt um daginn og eigandinn fór til dyra. King George þeyttist í gegnum íbúðina til þess að taka líka á móti gestunum.

Á þessum þeytingi sínum þeytti hann skammbyssu húsbóndans af sófaborðinu. Það hljóp skot úr byssunni og eigandinn hneig niður, með skot í bakinu. Miesha Lucas, kærasta hins skotna segir að King George hafi strax áttað sig á því að hann hefði gert eitthvað rangt. Hann hnipraði sig saman úti í horni og vældi ámátlega.

Sem betur fór særðist eigandinn ekki hættulega. Og honum þykir jafn vænt um King George og áður. Lögreglan segir að engin kæra verði lögð fram. Ekki kemur fram í þessari frétt hvort eigandinn hafi einusinni verið spurður um hvers vegna hann var með hlaðna skammbyssu á sófaborðinu. En þetta er nú einusinni Ameríka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×