Erlent

Sjíaklerkur boðar frið í Írak

Óli Tynes skrifar
Moqtada al-Sadr
Moqtada al-Sadr

Íraski sjía klerkurinn Moqtada al-Sadr segir að hann muni fagna virkari þáttöku Sameinuðu þjóðanna í Írak, ef samtökin vilji hjálpa Írökum að endurbyggja landið. Í viðtali við breska blaðið Independent segir klerkurinn að Sameinuðu þjóðirnar megi ekki verða annað andlit bandaríska hernámsins á landinu.

Hann segir að hann myndi styðja samtökin ef þau kæmu í staðinn fyrir bresku og bandarísku hersveitirnar.

"Ef Sameinðu þjóðirnar koma hingað til þess að hjálpa írösku þjóðinni þá munum við hjálpa til." Öryggisráðið samþykkti fyrr í þessum mánuði að breikka umboð sitt í Írak.

Gefið er í skyn að fjölgað verði í starfsliðinu þar. Sameinuðu þjóðirnar fóru í raun frá Írak fyrir fjórum árum eftir að 22 starfsmenn þeirra féllu í sprengjuárás á höfuðstöðvarnar í Bagdad.

Í samþykkt öryggisráðsins var samtökunum gert að ná þjóðarsátt í Írak og stjórna viðræðum við nágrannaríki þess. Moqtada al-Sadr er einn valdamesti og mikilvægasti foringi þeirra sem berjast gegn hernámi Íraks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×