Erlent

Danska löggan að gefast upp á Kristjaníu

Óli Tynes skrifar
Kristjanía er eins og sjálfstætt ríki í hjarta Kaupmannahafnar.
Kristjanía er eins og sjálfstætt ríki í hjarta Kaupmannahafnar.

Ef lögreglumenn fengju sjálfir að ráða myndu þeir hætta eftirlitsferðum um Kristjaníu, segir formaður Landssambands danskra lögregluþjóna. Þeim finnst þær ekki þjóna neinum tilgangi. Lögregluþjónarnir kenna stjórnmálamönnum um og segja að þeir reyni að halda málinu heitu með því að pissa í buxurnar.

Stjórnvöld í Danmörku vilja afleggja fríríkið og koma þar upp venjulegu íbúðahverfi. Lögreglumönnum finnst hinsvegar að sú aðgerð sé svo illa skipulögð og illa fylgt eftir að ekkert gagn sé í henni. Peter Ibsen, formaður Landssambandsins segir að ekkert hafi breyst í Kristjaníu frá því í mars 2004 þegar fjölmennar lögreglusveitir fóru þar inn til þess að ryðja Dópsölustrætið svokallaða.

Peter Ibsen bendir á að síðastliðinn miðvikudag hafi lögreglan aftur ráðist inn í Kristjaníu til þess að gera upptækt dóp. Nokkrum mínútum eftir að lögreglan fór hófst hass salan á nýjan leik.

Ibsen segir að hringlandinn í stjórnmálamönnum sé slíkur að lögreglan geti ekki fundið sér neitt markmið að vinna að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×