Erlent

Petraeus gagnrýndur

Guðjón Helgason skrifar

Demókratar á Bandaríkjaþingi vísa á bug fullyrðingum yfirmanns bandaríska heraflans í Írak um að markmiðum þar hafi verið náð með fjölgun í herliðinu. Herforinginn segir fyrst hægt að kalla hermenn heim næsta sumar en margir þingmenn vilja hefja heimkvaðninguna strax.

David Petraeus, yfirmaður Bandaríkjahers í Írak, og Ryan Crocker, sendiherra Bandaríkjamanna í Írak, komu á fund þingnefndar fulltrúardeildar Bandaríkjaþings í gær og kynntu mat sitt á því hvaða áhrif það hefði haft að fjölga bandarískum hermönnum um þrjátíu þúsund í Írak. Sagði Petraeus að mörgum markmiðum hefði verið náð en herinn þyrfti meiri tíma til að vinna verk sitt. Hann taldi að ekki yrði hægt að kalla viðbótarhermennina heim fyrr en næsta sumar og þá myndi heimkvaðning halda áfram. Óvíst væri þó hvað hún myndi ganga hratt fyrir sig.

Tom Lantos, formaður utanríkismálanefndar, vísaði fullyrðingum Petraeusar á bug. Hann sagði að á vissan hátt hefði ástandið batnað og árásum og óhæfuverkum fækkað líkt og Petraeus segði. Verkefnið hefði þó í heild sinni misheppnast og nú væri tími kominn til þess að kalla herliðið heim.

Annar talsmaður demókrata á þinginu, Lynn Woolsey, sagði í gær að Petreus væri einungis málpípa Hvíta hússins og því lítið að marka hann.

Petreus vísaði því á bug. Hann segir að hvorki Hvíta húsið né varnarmálaráðuneytið hefðu fengið að lesa vitnisburð hans áður en hann kom fyrir þingnefndina. Hundrað sextíu og átta þúsund bandarískir hermenn eru nú í Írak og hafa ekki verið fleiri.

Bandaríkjamenn vilja fara að ráðum Lantos og kalla þá heim hið fyrsta. Þeim boðskap var komið á framfæri á fundinum en mótmælendum var umsvifalaust vísað úr salnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×