Erlent

Ferðir sendifulltrúa takmarkaðar

Guðjón Helgason skrifar

Bandarískum sendifulltrúum í Írak er nú bannað að ferðast utan Græna svæðisins svokallaða í Bagdad. Þetta var ákveðið eftir að írösk yfirvöld bönnuðu starfsemi verktakafyrirtækisins Blackwater í landinu. Fyrirtækið hefur annast gæslu sendifulltrúa.

Írakar ákváðu að svipta Blacwater starfsleyfi eftir að 11 almennir íraskir borgarar týndu lífi þegar verktakar svokallaðir á vegum fyrirtækisins skutu út í loftið á mannmörgu torgi í Bagdad á sunnudaginn. Fyrirtækið hefur samið um að sjá um að vernda alla starfsmenn utanríkisráðuneytisins bandaríska í Írak. Talsmaður Blackwater segir starfsmenn fyrirtækisins hafa einvörðungi skotið í sjálfsvörn. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hét því í gær í samtali við Nouri al Maliki, forsætisráðherra Íraks, að málið yrði rannsakað ítarlega. Það breytti því ekki að fyrirtækinu er nú bannað að starfa í Írak og verktökum þeirra bannað að bera vopn.

Það var svo í morgun sem bandaríska sendiráðið í Írak sendi bandarískum borgurum í Írak yfirlýsingum þar sem segir að öllum ferðum sendifulltrúa út fyrir græna svæðið svokallaða í Bagdad verði hætt í óákveðinn tíma frá deginum í dag. Á meðan verði farið yfir öryggismál og vernd þeirra.

Írakar ætla nú að fara yfir starfsemi erlendra fyrirtækja sem starfa í landinu og sinna öryggisgæslum. Mörg þeirra eru með milljónasamninga við Bandaríkjamenn og sjá um verk sem áður voru á könnu hersins. Verktakabransinn í Írak er margra milljarða virði. Talið er að svo kallaðir vopnaðir verktakar í landinu séu nú á bilinu tuttugu og fimm til þrjátíu þúsund en þó telja margir þá margfallt fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×