Fótbolti

Hækkaði um milljarð á mánuði

Gulldrengurinn Di Natale er að springa út um þrítugt
Gulldrengurinn Di Natale er að springa út um þrítugt AFP

Forráðamenn Udinese hafa hækkað verðmiðann á framherjanum Antonio Di Natale um helming til að fæla frá áhuga félaga eins og AC Milan á leikmanninum. Di Natale hefur farið hamförum í markaskorun á síðustu vikum.

Hann byrjaði markasyrpu sína á því að skora bæði mörk Ítala í 2-1 sigri liðsins á Úkraínumönnum í undankeppni EM. Þá sneri hann aftur í A-deildina með Udinese og skoraði sigurmark liðsins í ævintýralegum 1-0 útisigri á Juventus. Hinn 29 ára gamli Di Natale var svo aftur á skotskónum um síðustu helgi þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-0 sigri á Reggina.

Di Natale var metinn á 12 milljónir evra í sumar og átti þá í deilum við forráðamenn félagsins. Nú hefur hann hinsvegar náð sáttum og skorar grimmt. Verðmiðinn hefur í kjölfarið rokið upp í 23 milljónir evra.

"Við eigum frábært samband við Di Natale," sagði stjórnarformaður Udinese í nýlegu viðtali og tilkynnti verðhækkunina í kjölfarið. Di Natale hefur sem sagt farið frá því að vera metinn á einn milljarð upp í tvo milljarða á rúmum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×