Erlent

Fyrirburi dafnar vel

Guðjón Helgason skrifar

Kimberly Müeller fæddist 15 vikum fyrir tímann og vó þá rétt rúma mörk. Í dag - hálfu ári - síðar er hún komin heim og dafnar vel. Læknar segja að ekki komi nærri því strax í ljós hvort hún hafi hlotið varanlegan skaða.

Foreldrar Kimberly litlu voru að vonum glaðir á fundi með fréttamönnum í Göttingen í Þýskalandi í gær. Þeim hafði verið leyft að fara með dóttur sína heim.

Hún fæddist 12. mars síðastliðinn - þá 15 vikur fyrir tímann, vó aðeins um 300 grömm eða rétt rúma 1 mörk. Börnum sem fæðast svo löngu fyrir tímann er vart hugað líf. Kimberly mun þó mikill baráttujaxl því í dag er vegur hún 2,2 kíló og óhætt að senda hana heim með mömmu og pabba.

Petra Müeller, móðir Kimberly, segir dóttur sína sterka stúlku með sterkan persónuleika. Faðir hennar, Andreas, segir konu sína sterka og þaðan hafi dóttirin fengið styrk sinn.

Oliver Möller, læknir Kimberly, segir að vel þurfi að fylgjast með henni næstu misserin - hún þurfi meðal annars að koma reglulega í súrefnismeðferð. Ekki sé hægt að spá fyrir um það nú hvernig hún eigi eftir að þroskast næstu vikur, mánuði og ár. Hún verði undir stöðugum rannsóknum og eftirliti næstu árin. Yfirleitt þurfi að bíða fram að skólaaldri til að meta ástand fyrirbura. Hún verði því skoðuð nánar þegar hún byrji í skóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×