Erlent

Mútumál tengt Norsk Hydro

Guðjón Helgason skrifar

Stjórnendur orkufyrirtækisins Norsk Hydro eru grunaðir um að hafa borgað jafnvirði ríflega 400 milljóna íslenskra króna í mútur vegna verkefna í Líbíu.

Það var starfsmaður Norsk Hydro sam vakti athygli innri endurskoðunar Statoil á tveimur greiðslum. Félögin tilkynntu það fyrir tæpu ári að þau ætluðu að ganga í eina sæng í olíu- og gasmálum undir heitinu StatoilHydro. Þeim samruna var lokið í fyrradag. Fram að því hafði verið farið ítarlega yfir bókhald beggja félaga.

Greiðslunar voru samanlagt um 418 milljónir íslenskra króna og inntar af hendi til ráðgjafa eins og það er kallað. Þær tengdust tveimur olíusvæðum í Líbíu sem Saga Peroleum átti - félag sem Norsk Hydro tók yfir 1999.

Eivind Reiten er framkvæmdastjóri Norsk Hydro og stjórnarformaður StatoilHydro. Hann er sagður lykilmaður í málinu. Reiten segir engin gögn hafa komið fram sem bendi til þess að brotið hafi verið gegn reglum eða lögum. Auk þess hafi greiðslurnar verið samkvæmt samning Saga frá því fyrir yfirtöku - þeim hafi verið hætt.

Að sögn norskra fjölmiðla vissi Reiten af málinu fyrir nokkru en mun ekki hafa brugðist við því - metið það svo að það væri úr sögunni. Telja margir honum illa sætt áfram í stól framkvæmdastjóra og stjórnarformanns. Peggy Brønn, prófessor við Stjórnendaskóla Noregs, telur Reiten í miklum vandræðum og það muni reynast honum erfitt að komast óskaddaður frá málinu.

Stjórnendur StatoilHydro hafa óskað eftir óháðri rannsókn vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×