Fótbolti

Trezeguet hótar að hætta í franska landsliðinu

Trezeguet á ekki orð yfir vinnubrögðum þjálfara síns
Trezeguet á ekki orð yfir vinnubrögðum þjálfara síns NordicPhotos/GettyImages

Markahrókurinn David Trezeguet hefur látið í það skína að hann muni hætta að gefa kost á sér í franska landsliðið eftir að hann hlaut ekki náð fyrir augum Raymond Domenech fyrir komandi verkefni í undankeppni EM.

Juventusmaðurinn hefur verið iðinn við kolann með liði sínu í ítölsku A-deildinni í haust, en hann var ekki í landsliðshópi Domenech fyrir leikina gegn Færeyingum og Litháum.

"Ég bara skil þetta ekki. Domenech segist alltaf velja lið sitt byggt á frammistöðu leikmenna með félagsliðum sínum og ég er búinn að skora sjö mörk í síðustu sex leikjum. Ég hef aldrei byrjað betur á ferlinum og á ekki von á að geta gert betur en þetta," sagði Trezeguet og hélt áfram.

"Maður sem spilar reglulega með Juventus, Milan eða Barcelona á einfaldlega að vera fyrsti kostur í landsliðið. Á þessu stigi á ferlinum ætti ég ekki að þurfa að spyrja að því hvort ég verði í byrjunarliðinu gegn Litháen. Ég krefst svara og ég verð að panta fund með þjálfaranum og spyrja hann að því hvað sé í gangi," sagði framherjinn og lét í veðri vaka að hann myndi hætta með landsliðinu að öllu óbreyttu.

"Ef ég verð kallaður til í leikinn gegn Úkraínu í nóvember - mun ég hugsa mig mjög vel um áður en ég ákveð mig. Það eru takmörk fyrir öllu," sagði hann. Trezeguet hefur skorað mark í öðrumhverjum leik með franska landsliðinu á ferlinum sem hófst fyrir níu árum, sem verður að teljast ansi góður árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×