Erlent

Áttatíu meintir barnaníðingar handteknir í Portúgal

Lögreglan í Portúgal vonast til að rassían í gær komi þeim á slóðina í máli Madeleine.
Lögreglan í Portúgal vonast til að rassían í gær komi þeim á slóðina í máli Madeleine. MYND/AP
Lögreglan í Portúgal handtók í gær áttatíu grunaða barnaníðinga og lagði hald á um 150 tölvur í stærstu lögregluaðgerð gegn barnaníðingum í sögu landsins. Hún fer nú í gegnum ógrynni barnakláms sem fannst í aðgerðinni.

Að sögn lögregluyfirvalda var verið að ráðast gegn barnaníðinganeti og eru lögreglumenn þegar byrjaðir að fara í gegnum tölvurnar í leit að barnaklámi. Að sögn Paulos Rebelos, varalögreglustjóra í landinu sem tók við rannsókn á hvarfi Madeleine í vikunni, binda menn jafnvel vonir við að geta fundið myndir af bresku stúlkunni Madeleine McCann sem rænt var í landinu í maí og að þær komi mönnum á slóðina í málinu. Rassían í gær var þó ekki gerð í þeim eina tilgangi.

Rannsókn á máli stúlkunnar heldur áfram og fóru rannsóknarmenn í fyrradag í hótelíbúðina þaðan sem Madeleine hvarf til þess að reyna að átta sig á atburðarásinni í smá atriðum þegar Madeleine var rænt.

Foreldrar Madeleine, Kate og Gerry McCann sem eru grunuð í málinu, eru sögð afar jákvæð eftir fréttirnar.

Clarence Mitchell talsmaður fjölskyldunnar sagði frétastofu Sky að áhlaup lögreglunnar væri afar hvetjandi. Húsleitirnar hafi ekki verið í beinum tengslum við hvarfið á Madeleine en hann vonaðist til að tenging væri á milli rannsóknanna tveggja.

“Við höfum sérstakan áhuga á að vita hvort einhver húsleitanna fór fram í eða við Praia da Luz.

Frumkvæði Rebelo bendir til harðari afstöðu gegn barnaníðingum í Portúgal.

Árið 2004 var ekki ólöglegt að eiga barnaklám í landinu. Það var einungis ólöglegt að selja það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×