Grétar Rafn Steinsson verður ekki með AZ Alkmaar sem mætir Zenit St. Petersburg í UEFA-bikarkeppninni á morgun vegna meiðsla.
Leikurinn er í fyrstu umferð A-riðils. Grétar meiddist í landsleik Íslands og Lettlands um þarsíðustu helgi og missti í kjölfarið af landsleiknum við Liechtenstein.
Hann var svo í byrjunarliði AZ um helgina en var tekinn út af í hálfleik vegna meiðsla. Milano Koenders kemur inn í byrjunarlið AZ í stað Grétars.
Um helgina skrifaði Grétar undir nýjan samning við AZ sem gildir til ársins 2012 sem um leið tryggir honum betri persónuleg kjör.