Roma hafði betur í grannaslagnum gegn Lazio í ítölsku A-deildinni í kvöld og AC Milan rétti úr kútnum eftir dapurt gengi með 5-0 útisigri á Sampdoria. Emil Hallfreðsson var í byrjunarliði Reggina sem steinlá heima 3-1 fyrir Livorno. Honum var skipt af velli á 58. mínútu.
Vucinic, Manchini og Perrotta skoruðu mörk Roma í kvöld í 3-2 sigrinum á Lazio en Rocchi og Ledsema skoruðu fyrir Lazio.
Gilardino skoraði tvívegis fyrir Milan og þeir Kaká, Gourcuff og Seedorf eitt hver þegar Milan burstaði Sampdoria.
Juventus vann öruggan 3-0 sigur á Empoli þar sem David Trezeguet skoraði þrennu fyrir heimamenn.
Þá vann Inter auðveldan 4-1 sigur á Genoa með mörkum frá Cordoba, Cambiasso, Suazo og Cruz.