Viðskipti innlent

FL Group tapaði 27 milljörðum

Hannes Smárason, forstjóri FL Group.
Hannes Smárason, forstjóri FL Group.

FL Group tapaði 27,1 milljarði króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 5,3 milljarða króna hagnað á sama tíma í fyrra. Þetta er á pari við væntingar greinenda, sem reiknaðist til að tapið myndi hlaupa á 26 til 29 milljörðum króna. Í uppgjörinu segir að miklar sveiflur á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum hafi haft áhrif á afkomuna.

Þá kemur einnig fram í uppgjörinu að heildareignir hafi aukist um 40,5 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins og námu 369,4 milljörðum króna samanborið við 262,9 milljarða króna í lok síðasta árs.

Eigið fé var 149,2 milljarðar króna í lok ársfjórðungsins og eykst um 6,5 milljarða króna frá síðasta ári. Ennfremur segir í uppjörinu að fjárhagsstaða og fjárfestingageta sé áfram góð og eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins sé 40,4 prósent og lausafjárstaða 29,5 milljarðar króna.

Uppgjör FL Group

Hannes Smárason verður gestur Sindra Sindrasonar í hádegisviðtali Stöðvar 2 í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×