Erlent

Undirvagninn vandamálið

Guðjón Helgason skrifar
MYND/Teknikens Värld

Toyota í Evrópu hefur fyrirskipað að sölu á Hilux pallbíl fyrirtækisins á 16 tommu dekkjum verði hætt í allri álfunni. Bíllinn valt næstum í elgsprófi. Ritstjóri sænsks bílablaðs sem gerði prófið segir dekkin ekki vandamálið heldur undirvagninn.

Það var sænska bílablaðið Teknikens Värld sem gerði elgsprófið á sex pallbílategundum. Bílunum var ekið á innan við sextíu kílómetra hraða og síðan snarbeygt til að vikja undan aðvífandi hættu - svo sem eins og elg á miðjum veginum. Mitsubishi L tvö hundruð kom best út úr prófinu en Toyota Hilux verst. Sama próf kom illa út fyrir A-bíl Mercedes Benz fyrir tíu árum og endurbætur þá gerðar á þeim bílum eftir að sala á þeim hrundi.

Að sögn Kristins G. Bjarnasonar hjá Toyota á Íslandi gerðu Toyota í Evrópu og Japan prófanir á bílnum og að sögn hans fengu þeir ekki bílinn til að hegða sér með sama hætti og Teknikens Värld í þeirra prófi. Þrátt fyrir það hafi verið ákveðið að hætta að selja bílinn á sextán tommu dekkjum því bíllinn hafi ekki hegðað sér sem skyldi. Á fimmtán tommu dekkjum skapist engin hætta.

Kristinn segir Toyota Hilux bíla sem seldir séu á Íslandi alla með fimmtán tommu dekkjum - sextán tommu dekkin séu aukabúnaður. Formlegrar tilkynningar vegna málsins frá höfuðstöðvum Toyota sé að vænta á næstu dögum.

Fréttastofa Stöðvar tvö hafði samband við Daniel Frodin, ritstjóra Teknikens Värld. Þær upplýsingar fengust hjá honum að dekkin og breidd þeirra væri ekki vandamálið heldur undirvagn Hiluxins. Hann sé ekki rétt hannaður. Þetta sé alvarlegt vandamál sem þurfi að taka á. Hægt sé aðs etja rafeindastýrðan jafnvægisbúnað í bílana - en Toyota Hilux er einn af fáum nýjum bílum án hans. Einnig segir Frodin hægt að endurhanna undirvagninn.

Hilux bílar njóta vinsælda á Íslandi sem og annars staðar. Um sjö hundruð og fimmtíu slíkir eru nú á íslenskum götum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×