Viðskipti innlent

Logn á íslenskum hlutabréfamarkaði

Kauphöll Íslands í haustlitum.
Kauphöll Íslands í haustlitum.

Stemningin á hlutabréfamarkaði hér á landi er í engu samræmi við veðrið en viðskipti eru með rólegasta móti, 21 í fjórum félögum á þeim tæpa hálftíma sem liðinn er frá upphafi viðskiptadagsins.

Gengi einungis tveggja félaga hefur hækkað það sem af er dagsins, mest í álfélaginu Century Aluminum, sem fór upp um 2,33 prósent. Þá hækkaði sömuleiðis gengi SPRON um tæp 0,40 prósent.

Á sama tíma lækkaði gengi bréfa í Glitni og Kaupþingi um 0,22 og 0,23 prósent.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,14 prósent og stendur vísitalan í 6.515 stigum.

Þetta er öfugt við þróunina á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum, svo sem í Evrópu. Breska hlutabréfavísitalan FTSE hefur hækkað um 0,48 prósent og hin þýska Dax um 0,47 prósent. C20-vísitalan í kauphöll OMX í Kaupmannahöfn í Danmörku hefur hins vegar lækkað um 0,58 prósent á sama tíma.

Þá lækkaði Nikkei-vísitalan í Japan í morgun um 0,14 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×