Erlent

Myrtu dótturina út af skilnaði

Óli Tynes skrifar

Foreldrar sautján ára gamallar pakistanskrar stúlku myrtu hana þegar hún reyndi að skilja við 45 ára gamlan mann sem hún hafði verið gift þegar hún var níu ára gömul.

Blaðið The Weekend Australian segir að stúlkan hafi verið að koma út úr dómshúsi þar sem hún hafði fengið hjónabandið ógilt.

Fyrir framan dómshúsið umkringdi hópur manna hana og skaut hana til bana fyrir augum lögreglunnar.

Morðið er mikið áfall fyrir mannréttindasamtök sem eru enn í sárum eftir að fregnir bárust af því í síðustu viku að fimm konur hefðu verið myrtar í Baluchistan.

Þrjár voru ungar stúlkur sem höfðu krafist þess að fá sjálfar að velja sér eiginmenni.

Hópur karlmanna réðst inn á heimili þeirra og dró þær út ásamt tveim öðrum konum sem voru eldri ættingjar.

Konunum var troðið inn í bíl og ekið með þær á afskektan stað. Þar hófu karlmennirnir skothríð á þær.

Þegar þær féllu blóðugar til jarðar voru þær dregnar í nærliggjandi skurð og fyllt yfir með grjóti. Sagt er að þær hafi ekki allar verið látnar þegar það gerðist.

Ekkert var gert við morðingjana. Yfirvöld hafa þó nú lofað rannsókn, eftir mikið upphlaup á pakistanska þinginu.

Þingmaðurinn Istar Ullah Zehri sagði þar að þetta væri aldagömul hefði sem yfirvöld ættu ekki að skipta sér af.

Þingmenn múslimaflokksins Jamaat-e-Islami urðu öskureiðir. Þeir samþykktu ályktun þar sem þeir fordæmdu þennan villimannslega glæp sem þeir kölluðu svo.

Hann gengi gegn Islam, gegn mannkyninu og gegn allri siðmenningu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×