Erlent

Samið um valdaskiptingu í Zimbabwe

Óli Tynes skrifar

Samningur um valdaskiptingu var undirritaður í Zimbabwe í dag. Robert Mugabe verður áfram forseti en Morgan Tswangirai leiðtogi stjórnarandstöðunnar verður forsætisráðherra.

Mugabe mun gefa eftir nokkuð af völdum sínum en vera áfram yfirmaður hersins. Tswangirai mun hinsvegar stjórna lögreglunni.

Hrjáðir íbúar Zimbabwe vonast til að þetta verði fyrsta skrefið í að endurreisa þetta eitt sinn auðuga land.

Verðbólga er nú yfir 11 milljón prósent og milljónir manna hafa flúið til nágrannalanda.

Fréttaskýrendur segja að samningurinn sé veikburða. Fyrrum svarnir óvinir verði að leggja deilur sínar til hliðar og vinna mjög náið saman til þess að afla sér trausts.

Sérstaklega er mikiðvægt að það takist á Vesturlöndum því Zimbabwe þarf milljarða króna aðstoð til að komast á réttan kjöl.

Evrópusambandið hefur þegar fagnað undirrituninni og lýst sig reiðubúið til þess að veita aðstoð, ef nýja stjórnin sýni framá að hún ætli að endurreisa lýðræði í landinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×