Erlent

Bilað viðvörunarkerfi átti þátt í flugslysinu í Madrid

Óli Tynes skrifar
Frá flugslysinu í Madrid.
Frá flugslysinu í Madrid.

Bilun í viðvörunarkerfi í stjórnklefa átti þátt í því að þota frá Spanair flugfélaginu fórst í flugtaki í Madrid í síðasta mánuði, að sögn spænska blaðsins El Pais.

Blaðið vitnar í frumskýrslu slysarannsóknarnefndar. Eitthundrað fimmtíu og fjórir létu lífið í slysinu.

Blaðið segir að viðvörunarkerfið hafi ekki látið flugmennina vita að vængbörð vélarinnar hefðu ekki farið út.

Vængbörðin auka lyftikraft og ef þau eru ekki úti þarf vélin að vera á meiri hraða en ella til þess að komast á loft.

Fyrir flugtak reikna flugmennirnir út hversu hratt hún þarf að fara til að komast í loftið. Þar eru teknir inn margir þættir. Svosem þyngd vélarinnar, hitastig og vindhraði og hversu langt vængbörðin eru sett út.

Því lengra sem vængbörðin eru sett út þeim mun minni þarf hraðinn að vera.

El Pais segir að vélin hafi verið í aðeins tólf metra hæð þegar raddað viðvörunarkerfi sagði „ofris, ofris." Það þýðir að vélin er ekki á nógu miklum hraða.

Augnabliki síðar skall afturhluti hennar niður á flugbrautina. Hún sveigði til hliðar og lenti í skurði þar sem hún brotnaði og brann.

Spænsk yfirvöld vildu ekki tjá sig um frétt blaðsins. Sögðu að þau myndu bíða þartil fullnaðarrannsókn lyki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×