Síðustu og einu heimaleikir íslenska handboltalandsliðsins fyrir Ólympíuleikana í Peking verða um helgina. Leikið verður gegn Spáni í Vodafone-höllinni á föstudagskvöld og laugardag.
Ókeypis aðgangur verður á völlinn meðan húsrúm leyfir. Fyrri leikurinn verður 19:30 á föstudag og verður hægt að nálgast miða á þann leik í verslunum Vodafone á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri.
Seinni leikurinn verður klukkan 16:00 á laugardag en útvarpsstöðin Bylgjan mun annast dreifingu miða á þann leik.
Á föstudag leikur Vignir Svavarsson sinn 100. landsleik en á laugardag mun Guðjón Valur Sigurðsson leika sinn 200. landsleik.
Í næstu viku heldur íslenska liðið á æfingamót í Strasbourg þar sem mótherjarnir verða Spánverjar, Frakkar og Egyptar. Snemma í ágúst verður síðan haldið til Peking en stefnan er að leika æfingaleik þar ytra áður en alvaran hefst.
Fyrsti leikur Íslands á Ólympíuleikunum verður síðan 10. ágúst gegn Rússlandi.