Erlent

Aung San fær næringu í æð

Óli Tynes skrifar
Aung San Su Ky.
Aung San Su Ky.

Búrmiska andófskonan Aung San Su Ky er orðin mjög veikburða og fær næringu í æð. Aung San sem er nú 63 ára gömul hefur setið í stofufangelsi herforingjastjórnarinnar meira og minna í 19 ár.

Um miðjan síðasta mánuð hóf hún mótmælaaðgerð og neitaði að taka við hinum daglega matarpakka sem herforingjastjórnin skammtar henni. Hún hefur síðan lítið nærst.

Um síðustu helgi var lækni hennar nóg boðið. Hún var orðin svo veikburða að hann gefur henni næringu í æð og hefur fengið hana til þess að taka við matarpökkunum á nýjan leik.

Aung San er leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Burma. Árið 1990 vann flokkur hennar yfirburðarsigur í fyrstu lýðræðislegu kosningum landsins.

Herforingjastjórnin sem hefur stjórnað Burma síðan 1962 neitaði hinsvegar að fara frá völdum og hneppti hana í stofufangelsi.

Hún komst ekki til Noregs til þess að taka á móti friðarverðlaunum Nóbels sem henni voru veitt árið 1991.

Hún gat heldur ekki verið viðstödd eiginmanns síns sem lést í Bretlandi árið 1999 og hefur ekki fengið að tala við syni sína tvo síðan 2003.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×